Framúrskarandi fyrirtæki 2016

Creditinfo veitti framúrskarandi fyrirtækjum viðurkenningar á Hilton Reykjavík Nordica í dag fyrir rekstrarárið 2015, að viðstöddum nýjum fjármála- og efnahagsráðherra, Benedikt Jóhannessyni. Þorbjörn hf., Fálkinn og Grillmarkaðurinn hlutu sérstakar viðurkenningar.

Icelandair Group hf. er efst á lista Creditinfo hf. yfir framúrskarandi fyrirtæki fyrir árið 2016. Þar á eftir koma Samherji hf., Icelandair ehf., og Marel hf.  Í ár fengu 624 fyrirtæki viðurkenningu, um 1,7% allra skráðra fyrirtækja á Íslandi. Þau fyrirtæki sem komast á lista framúrskarandi fyrirtækja eiga það sameiginlegt að vera með sterkar stoðir og stöðugleika í sínum rekstri. Þau eru jafnframt líkleg til að efla hag hluthafa og fjárfesta. Fjármálaráðherra afhenti Þorbirni hf., Fálkanum hf. og Grillmarkaðnum hf. sérstakar viðurkenningar. Samstarfsaðilar Creditinfo hf. um Framúrskarandi fyrirtæki eru Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar- og þjónustu, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi.Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra  ávarpaði gesti og talaði um mikilvægi gegnsæis og trausts og lagði hann áherslu á að slíkt ætti ekki eingöngu við í ríkisrekstri heldur einnig viðskiptalífinu almennt. „Til þess að viðskipti gangi greitt fyrir sig verður traust að ríkja. Skilvirkni næst með því að ryðja úr vegi viðskiptahömlum hvar sem þær kunna að vera og hvaða nafni þær nefnast. Þessi þekking verður æ mikilvægari eftir því sem hagkerfi heimsins tvinnast betur saman með viðskiptum,“ sagði fjármálaráðherra.

Auk ráðherra flutti Tómas Á. Tómasson, stofnandi og eigandi Hamborgarabúllu Tómasar, barráttuljóð og sagði jafnframt að stjórnendur ættu „aldrei, aldrei, aldrei að gefast upp, þolinmæði er lykillinn að paradís“. Brynja Baldursdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo, sagði einnig við þetta tilefni: „Það er mjög jákvætt að sjá að hagur íslenskra fyrirtækja fer batnandi og að meðaltalsarðsemi eigin fjár hefur aukist og eiginfjárhlutfall hefur hækkað. Enn fremur er ánægjulegt að verðlauna fyrir nýsköpun hjá rótgrónu fyrirtæki en hún skiptir sköpum hvað varðar framþróun og samkeppnishæfni fyrirtækja, ekki bara nýsköpunarfyrirtækja“. 

Nýsköpun verðlaunuð í fyrsta sinn

Í ár er veitt viðurkenning fyrir nýsköpun í rótgrónu fyrirtæki í fyrsta sinn. Markmiðið er að vekja athygli á mikilvægi nýsköpunar hjá öllum fyrirtækjum, ekki bara sprotafyrirtækjum. Sérstök dómnefnd, skipuð fulltrúum allra aðildarfélaga Samtaka atvinnulífsins (SI, SVÞ, SFF, SFS, Samorku og SAF), valdi Þorbjörn hf. í Grindavík. Enn fremur voru tilnefnd eftirfarandi fyrirtæki: Hampiðjan, Icelandair Group, Bláa lónið og Reiknistofa bankanna. Í umsögn dómnefndar segir: „Þorbjörn hf. hefur fylgt þeirri hugmyndafræði að finna aðferðir til að fullnýta sjávarfang í sinni framleiðslu með sjálfbærni að leiðarljósi. Félagið var brautryðjandi í pækilsöltun á sjó á sínum tíma og hefur tekið þátt í þróunarverkefnum við að betrumbæta flokkunarkerfi fyrir saltfiskflök. Þessi áhersla þeirra á sjálfbærni hefur leitt af sér verðmætasköpun í dótturfélögunum Haustaki og Codland. Bæði félögin nýta sjávarafurðir og skapa nýjar vörur úr hráefni sem áður var hent. Codland hefur meðal annars þróað aðferðir til að vinna Collagen úr fiskroði og framleiðir heilsudrykkinn Öldu úr því. Þorbjörn hf. hefur einnig unnið að nýsköpun í mennta- og fræðslumálum, m.a. með samstarfi við Háskólann í Reykjavík og með því að bjóða unglingum í Grindavík upp á að sækja vinnuskóla til að efla áhuga ungs fólks á sjávarútvegi.“
Grillmarkaðurinn hf. fékk viðurkenningu fyrir að vera yngsta fyrirtækið í erfiðasta atvinnugeiranum, en hæsta vanskilahlutfall fyrirtækja er í starfsemi veitingahúsa- og gististaða. Félagið var stofnað árið 2011 og hefur reksturinn gengið mjög vel frá upphafi.
Fálkinn hf. fékk jafnframt viðurkenningu fyrir að færast upp um flest sæti milli ára eða um 364 sæti. Félagið var í sæti 648 í fyrra en er nú í sæti 284 á listanum. 

Hagur Framúrskarandi fyrirtækja fer batnandi

Creditinfo hf. hefur unnið greiningu Framúrskarandi fyrirtækja frá árinu 2010 og hefur fyrirtækjum fjölgað ár frá ári að undanskildu þessu ári. Að þessu sinni hurfu 150 fyrirtæki af listanum þar sem þau skiluðu ekki ársreikningi á réttum tíma en það skilyrði er í samræmi við ný lög um ársreikninga. 112 ný fyrirtæki bættust á listann og var meðaltalsarðsemi eigin fjár þeirra 28,06%. Reitir fasteignafélag hf. er efst þeirra fyrirtækja sem koma ný á listann. Þar á eftir koma Félagsbústaðir hf., Hagar verslanir hf., Alcoa Fjarðaál sf., Hvalur hf., Eskja hf. og AKSO ehf. 

Meðaltalsarðsemi eigin fjár stórra fyrirtækja á listanum var 23%, meðaleiginfjárhlutfall 51% og meðaltal eigna var um 14 milljarðar króna. Afkoma stórra fyrirtækja er að meðaltali um 1 milljarður króna í hagnað. Meðalstór fyrirtæki voru að meðaltali með 26% arðsemi eigin fjár, eiginfjárhlutfallið var 58% og eignir upp á 468 milljónir króna. Lítil fyrirtæki voru að meðaltali með 63% eiginfjárhlutfall, 29% arðsemi eigin fjár og eignir upp á 138 milljónir króna.

Samkvæmt greiningu Creditinfo hefur dregið talsvert úr vanskilum félaga á undanförnum árum, sem þó hafa staðið í stað frá árinu 2015. Sá atvinnuvegur sem hefur hæsta vanskilahlutfallið er  gististaða- og veitingarekstur og hefur svo verið allt frá árinu 2009, en þá var hæsta vanskilahlutfallið í byggingastarfsemi. Heilbrigðis- og félagsþjónusta er sú atvinnugrein sem hefur lægsta vanskilahlutfallið. 

Þau félög sem fá viðurkenningu Creditinfo sem Framúrskarandi fyrirtæki þurfa að uppfylla viss skilyrði er varða rekstur og stöðu þeirra. Félögin þurfa að hafa skilað ársreikningum síðustu þriggja ára og á réttum tíma í samræmi við ársreikningalög. Enn fremur þurfa félögin að vera í einum af þremur sterkustu lánshæfisflokkum Creditinfo og félögin þurfa að sýna fram á rekstrarhagnað síðustu þrjú ár. Jafnframt þarf eiginfjárhlutfall félaganna að vera 20% eða meira þrjú rekstrarár í röð auk þess sem eignir þurfa að vera 80 milljónir króna eða meira þrjú ár í röð.