Vanskilaskrá


Vanskilaskrá hefur að geyma upplýsingar um vanskil einstaklinga og innheimtuaðgerðir. Þegar fyrirtæki metur nýjan umsækjanda um reikningsviðskipti kannar það gjarnan hvort viðkomandi sé á vanskilaskrá. Aðilar sem eru á vanskilaskrá fá ekki reiknað lánshæfismat.

Þú getur séð stöðu þína á vanskilaskrá með því að innskrá þig á þjónustuvefinn Mitt Creditinfo, endurgjaldslaust.


Hvenær fara mál á vanskilaskrá?

Skref eitt

Kröfuhafi sendir mál inn á vanskilaskrá vegna skuldar einstaklings að upphæð 60.000 kr. eða meira.

Skref tvö

Einstaklingur fær tilkynningu um væntanlega skráningu á vanskilaskrá og er veittur 17 daga greiðslufrestur til að greiða skuldina eða semja við kröfuhafa.

Skref þrjú

Ef skuldin er greidd innan 17 daga fellur málið niður. Ef skuldin er ekki greidd fer málið inn á vanskilaskrá.
Skoðaðu stöðu þína á Mitt Creditinfo

Þú getur kannað stöðu þína á vanskilaskrá, endurgjaldslaust inn á þjónustuvefnum Mitt Creditinfo. Þú innskráir þig með rafrænum skilríkjum eða stofnar aðgang og færð lykilorð sent í heimabanka.

Opna alla

Spurt og svarað

Hvaða skilyrði þurfa að liggja til grundvallar skráningu á vanskilaskrá?

Skráning vanskila þarf að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  • Upplýsingar um vanskil hafa verið löglega birtar eða gerðar aðgengilegar í opinberum gögnum eða
  • samanlagður höfuðstóll krafna hvers kröfuhafa nemur að lágmarki 50.000,-krónum, þ.e. fjárhæð krafna að undanskildum vöxtum og öðrum kostnaði, þ.m.t. innheimtukostnaði
    • vanskil hafa staðið yfir í 40 daga eða meira og
    • lántaki hefur með sérstakri yfirlýsingu í lána- eða skuldaskjali samþykkt heimild lánveitanda til að óska skráningar á vanskilum á vanskilaskrá Creditinfo og
    • löginnheimta hafin eða að fyrir liggi skrifleg viðurkenning greiðanda á gjaldfallinni skuld.

Er ég látin vita ef nafn mitt fer á vanskilaskrá?

Tilkynning um skráningu er send á skráð lögheimili samkvæmt Þjóðskrá. Tilkynningar eru einnig birtar og aðgengilegar í 12 mánuði á þjónustuvefnum. Ef um er að ræða fyrirhugaða skráningu eru upplýsingar birtar á skránni 17 dögum eftir dagsetningu tilkynningar, nema Creditinfo berist upplýsingar um uppgjör málsins.

Creditinfo er ekki skylt að senda tilkynningu um skráningu ef ætla má að viðkomandi sé þegar kunnugt um vinnsluna, s.s. ef viðkomandi hafi áður fengið viðvörun um skráningu. Þetta á þó ekki við hafi meira en 12 mánuðir liðið frá síðustu skráningu.

Get ég séð hvort nafn mitt er á vanskilaskrá?

Þú getur skoðað stöðu þína á vanskilaskrá með því að innskrá þig á þjónustuvefinn Mitt Creditinfo og velja Vanskilaskrá úr valmyndinni vinstra megin á síðunni.

Þar má sjá samantekt efst á síðunni (sjá mynd), sem tilgreinir hvort skráningar séu á nafni þínu, og ef svo er munu þær birtast í töflu fyrir neðan.

Fyrirhugaðar skráningar. Það eru mál sem send hafa verið inn á vanskilaskrá af kröfuhöfum, en skuldari hefur enn 17 daga til að greiða skuldina áður en málið fer inn á skrána. Ef skuldin er greidd inn 17 daga þá er málið látið niðurfalla.

Skráningar á vanskilaskrá. Upplýsingar um fjölda mála sem er þegar búið að skrá á vanskilaskrá.

Aðrar skráningar.

Get ég séð ef þriðji aðili kannar stöðu mína á vanskilaskrá?

Já þú getur fylgst með því hvort nafni þínu hefur verið flett upp í vanskilaskrá með því að skrá þig inn á Mitt Creditinfo og valið Vaktanir og uppflettingar úr valmyndinni vinstra megin.

Í fyrsta skipti sem nafni þínu er flett upp, þá er sendur bréfpóstur þess efnis á skráð lögheimili þitt samkvæmt Þjóðskrá. Eftir það eru tilkynningar birtar á þjónustuvefnum.

Á síðunni má sjá tvenns konar yfirlit:

  • Uppflettingar. Sýnir hvort nafni þínu hefur verið flett upp, af hvaða aðila og af hvaða ástæðu. Algengt er að fyrirtæki fletti nöfnum einstaklinga upp þegar stofnað er til nýrra viðskipta.
  • Vaktanir. Sýnir hvort aðilar sem þú átt í viðskiptum við séu að fylgjast með mögulegum breytingum sem gætu hafa orðið á þinni stöðu, eins og til dæmis skráning á vanskilaskrá.

Ef þú kannast ekki við að hafa átt í samskiptum við tiltekinn aðila sem birtist í yfirlitinu þínu þá geturðu smellt á blýantinn sem er lengst til hægri, til að senda inn athugasemd.

Hverjir hafa heimild til að skoða mína stöðu á vanskilaskrá og vakta breytingar ?

Upplýsingar úr VOG vanskilaskrá eru notaðar við innheimtu á kröfum í vanskilum eða við mat á umsækjendum eða núverandi viðskiptavinum vegna lána- eða reikningsviðskipta til að ákvarða lánakjör og úttektarheimildir.

Notkun upplýsinga úr skránni er eingöngu heimil viðskiptavinum Creditinfo sem undirritað hafa áskriftarsamning með ströngum skilyrðum er varða öflun, notkun og meðferð gagna. Lögvarðir hagsmunir þurfa að liggja til grundvallar uppflettingu í VOG vanskilaskrá.

Ef um er að ræða viðvarandi láns -eða reikningsviðskipti eða innheimtu á gjaldföllnum kröfum er lánveitendum eða umboðsmönnum þeirra heimilt að vakta breytingar á VOG vanskilaskrá. Athugasemd vegna óréttmætrar uppflettingar á VOG vanskilaskrá er komið á framfæri til Creditinfo á yfirliti uppflettinga á þjónustuvefnum Mitt Creditinfo. Athugasemd vegna óréttmætrar vöktunar er komið á framfæri til þess fyrirtækis sem vaktar breytingar eða á þjónustuvefnum Mitt Creditinfo.

Hvað eru upplýsingar um vanskil geymdar lengi?

Upplýsingum um vanskil sem mæla gegn lánshæfi er eytt þegar þær verða 4ra ára gamlar. Creditinfo er þó heimilt að geyma upplýsingar í 3 ár til viðbótar gegn ströngum aðgangstakmörkunum. Að þeim tíma liðnum er upplýsingum eytt úr kerfum Creditinfo eða þær gerðar ópersónugreinanlegar.

Er hægt að andmæla skráningu á vanskilaskrá?

Vinnsla upplýsinga um umdeildar skuldir er óheimil. Á kröfuhafa eða umboðsmanni kröfuhafa hvílir sú skylda að senda ekki mál til skráningar ef kröfuhafi veit að deilur standa um réttmæti skuldarinnar og ekki er um staðfesta réttargjörð að ræða. Ef greiðandi telur kröfu óréttmæta sendir greiðandi afrit til Creditinfo af sannarlegum andmælum til kröfuhafa eða umboðsmanns kröfuhafa og ber Creditinfo að afmá upplýsingar ef krafan nýtur ekki staðfestrar réttargjörðar.

Hvert er ferlið við afskráningu vanskilamála?

Á kröfuhafa eða umboðsmanni kröfuhafa hvílir sú skylda að afskrá mál á vanskilaskrá eins fljótt og ljóst er að viðeigandi krafa er uppgerð. Ef upplýsingar um uppgjör málsins berast ekki til Creditinfo mun skráning standa í fjögur ár. Að fjórum árum liðnum afskrást upplýsingar um vanskil sjálfkrafa í kerfum Creditinfo. Athygli er vakin á að fyrningartími krafna er oft lengri en sá tími sem heimilt er að miðla upplýsingum á VOG vanskilaskrá og getur því kröfuhafi í sumum tilfellum haldið áfram innheimtu þrátt fyrir að krafa sé fallin af vanskilaskrá vegna aldurs.

Athugasemd við skráningu eða fyrirhugaða skráningu á VOG vanskilaskrá er komið á framfæri til Creditinfo á yfirliti vanskila á þjónustuvefnum. Creditinfo er heimilt að gera athugun á réttmæti skráninga með því að bera málið undir viðkomandi kröfuhafa eða umboðsmanns kröfuhafa og eftir atvikum fá færsluna afskráða. Aðilar geta einnig snúið sér beint til kröfuhafa sem getur afskráð kröfuna sé hún uppgerð eða ef þörf er á nánari upplýsingum um kröfu.

Skráningar í rekstrarsöguskrá eru afskráðar ef fram kemur í skiptalokaauglýsingu skiptastjóra, að allar kröfur hafi verið greiddar eða þær afturkallaðar, eða að fjórum árum liðnum frá gjaldþroti fyrirtækis. Aðrar fjármálatengdar upplýsingar, s.s. kaupmálar og sviptingar eru birtar á skránni á meðan samningur eða úrskurður er í gildi.


Samkvæmt lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga þarf starfsleyfi frá Persónuvernd til að safna og skrá upplýsingar er varða fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga í því skyni að miðla þeim til annarra. Creditinfo hefur slíkt leyfi frá Persónuvernd. Starfsleyfi Creditinfo heimilar félaginu að safna og miðla upplýsingum á VOG vanskilaskrá, sem er skrá sem heldur utan um vanskil og opinberar gjörðir. Heimilt er að skrá á VOG vanskilaskrá upplýsingar úr opinberum gögnum, en einnig upplýsingar um vanskil frá áskrifendum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þá er heimilt að skrá upplýsingar frá hlutafélagaskrá um stofnendur, stjórnarmenn og framkvæmdastjóra hlutafélaga og einkahlutafélaga á rekstrarsöguskrá. Birting upplýsinga á rekstrarsöguskrá er heimil ef aðili hefur staðið að a.m.k. tveimur félögum sem úrskurðuð hafa verið gjaldþrota síðastliðin 4 ár.