Creditinfo yfir 10 milljarða virði í nýjustu viðskiptum

Í nýlegum viðskiptum með 10% hlut í Creditinfo var þreföld ársvelta lögð til grundvallar verðmati á félaginu. Er það sagt langt umfram það sem íslenskir fjárfestar eru vanir.

Stærsta sjálfstætt starfandi lánshæfismatsfyrirtæki Afríku, Compusan, hefur keypt 10% hlut í Creditinfo Group, sem er móðurfélag Creditinfo Lánstrausts. Hákon Stefánsson, að- stoðarforstjóri Creditinfo Group segir að kaupverð hlutarins hafi verið um einn milljarður króna. Jafngildir það því að heildarverðmæti Creditinfo Group sé tíu milljarðar. Velta Creditinfo Group var um þrír milljarðar á síðasta ári. Af því sést að í viðskiptunum var miðað við að verðmæti félagsins sé þreföld velta þess. „Við höfum í gegnum tíðina verið í viðræðum við íslenska fjárfesta, en það verður að segja það eins og er að þekking þeirra á svona starfsemi leiddi til þess að þeirra verðhugmyndir voru úr takti við það sem erlendir aðilar höfðu,“ segir Hákon. Hann segir að verð sem sé þreföld velta sé óþekkt á íslenskum markaði. Það sé á hinn bóginn vel þekkt alþjóðlega þegar fyrirtæki, sem starfa á ört vaxandi markaði gangi kaupum og sölum.

Innviðafyrirtæki

Hákon segir Creditinfo vera með starfsemi víða í Afríku. „Við erum á Fílabeinsströndinni, Senegal, Tansaníu og í Kenía. Compusan eru mjög stórir í Suður-Afríku og Úganda,“ segir Hákon. „Hugmyndin er að þeir fái aðgengi að hugbúnaði okkar sem ítrekað hefur sýnt sig að vera ódýrari en lausnir annarra, meðal annars í útboðum á vegum World Bank. Bankinn lítur á upplýsingakerfi um grundvallarþætti lánstrausts sem hluta af innviðauppbyggingu og forsendu þess að hægt sé að auðvelda aðgang að lánsfé.“ Um hlutafjárviðskiptin segir Hákon að Compusan kaupi hluti sem Creditinfo hafi átt í sjálfu sér, auk þess sem aðrir hluthafar eru að selja af sínum hlut. „Það er gaman að finna að starf okkar á framandi mörkuðum svo sem Jamaíka, Senegal, Gvæjana og Kenía, svo einhver lönd séu nefnd, er eitt af því sem þeim fannst eftirsóknarverðast. Jafnvel þótt ekki sé um mikil umsvif í þessum löndum að ræða, enn sem komið er, höfum við náð góðri fótfestu þar og munum svo vaxa með vexti heildarmarkaðarins.“ Hann segir mikla viðurkenningu felast í þessu fyrir Creditinfo. Hann segir nýjan hluthafa ekki hafa gert tilkall til stjórnarsetu. „En við þekkjum þá og þeir þekkja okkur og að mörgu leyti er lík menning í fyrirtækjunum og menn treysta því að samstarfið gangi vel.“

Eignarhald langmest íslenskt

Hákon segir að eftir viðskiptin séu um 16% hlutafjár í eigu erlendra aðila, að mestu einstaklinga, auk Compusan. Stofnandi Creditinfo, Reynir Grétarsson, eigi tæp 80% og mismuninn eigi lykilstarfsmenn. Creditinfo Group var stofnað árið 1997 og hefur vöxtur þess verið hraður. Félagið hefur starfsemi víða um heim, rekur þjónustu í 22 löndum í fjórum heimsálfum. Það hóf starfsemi sína með því að bjóða fyrirtækjum rafrænan aðgang að skulda- og greiðsluupplýsingum. Félagið hóf að safna gögnum frá opinberum aðilum, svo sem um reikningsskil, greiðslutryggingar og upplýsingum frá fyrirtækjaskrá. Félagið hefur staðið að þróun hugbúnaðar og þjónustu tengdri gagnagrunninum. Á þessum gagnagrunni hefur það byggt sókn sína á erlendum mörkuðum. Á þeim mörkuðum hefur áhersla félagsins verið á að veita aðgang að lánshæfisupplýsingum í löndum þar sem lánsfé er ekki aðgengilegt og þannig stuðlað að áhættustýringu fyrirtækja og stofnana. Starfsmenn Creditinfo Group eru nú tæplega 400. Nýkjörinn stjórnarformaður er Jakob Sigurðsson og forstjóri er stofnandinn Reynir Grétarsson.

​Frétt birtist í Morgunblaðinu 23.06.2016
​Blm. Jón Þórisson