Creditinfo styður við Jafnvægisvogina

Creditinfo hefur undirritað samstarfssamning við Félag kvenna í atvinnulífinu um stuðning við Jafnvægisvogina.

Creditinfo hefur undirritað samstarfssamning við Félag kvenna í atvinnulífinu um stuðning við Jafnvægisvogina. Samningurinn var undirritaður af Hrefnu Ösp Sigfinnsdóttur, framkvæmdastjóra Creditinfo á íslandi og Ástu Dís Óladóttur, formann stjórnar Jafnvægisvogar FKA.

Creditinfo mun styðja við Jafnvægisvogina með gögnum til framsetningar í Mælaborði Jafnvægisvogarinnar en mælaborðinu er m.a. ætlað að sýna með skýrum hætti kynjahlutföll íslenskra stjórnenda. Er gögnunum ætlað að styðja við vegferð Jafnvægisvogarinnar um að vera hreyfiafl til að auka á jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja í íslensku viðskiptalífi.

Ásta Dís Óladóttir, formaður stjórnar Jafnvægisvogar FKA:

„Það er mikill fengur fyrir jafnvægisvogina að fá Creditinfo um borð, þar sem tilgangurinn með voginni er að auka á jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar í íslensku viðskiptalífi og gera niðurstöður mælinga sýnilegar. Creditinfo mun koma með gögn inn í endurbætt mælaborð. Með gögnum er ákvarðanataka alltaf auðveldari, og því er það von okkar að þetta muni ýta enn frekar undir að  stjórnendur í íslensku viðskiptalífi kjósi að taka þá ákvörðun að auka á jafnrétti innan sinna raða.“

Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo á Íslandi:

„Við hjá Creditinfo erum þakklát fyrir að geta stutt við Jafnvægisvogina. Því miður hafa kynjahlutföll stjórnenda í íslensku atvinnulífi breyst hægt og því skiptir miklu máli að hafa tímanleg og rétt gögn til að virkja atvinnulífið til raunverulegra breytinga. Creditinfo hefur átt í góðu samstarfi við Félag kvenna í atvinnulífinu í gegnum árin og það gleður okkur að geta eflt það samstarf enn frekar í gegnum þetta öfluga mælitæki sem Jafnvægisvogin er.“

 

Um Jafnvægisvogina:

Jafnvægisvogin er hreyfiaflsverkefni á vegum Félags kvenna í atvinnulífinu til að stuðla að auknu kynjajafnrétti á meðal íslenskra stjórnenda. Markmið Jafnvægisvogarinnar eru eftirfarandi:

-Að auka á jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja í íslensku viðskiptalífi með það að markmiði að árið 2027 verði hlutfallið á milli kynja a.m.k. 40/60 í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi
-Að virkja íslenskt viðskiptalíf til að verða að fyrirmynd jafnréttis fyrir aðrar þjóðir
-Að veita viðurkenningar og draga fram í sviðljósið fyrirtæki sem hafa náð markmiðum Jafnvægisvogarinnar
-Að standa fyrir viðburðum og fræðslu og vekja samfélagið til hugsunar um virði fjölbreytileika og jafnvægis
-Að taka saman heildræna stöðu og niðurstöðu greininga á stöðu stjórnenda í íslensku atvinnulífi og birta niðurstöðu

 

Um Creditinfo:

Creditinfo var stofnað í Reykjavík árið 1997. Fyrirtækið er leiðandi upplýsinga-og þjónustufyrirtæki á heimsvísu, sem sérhæfir sig í miðlun fjárhags- og viðskiptaupplýsinga og ráðgjöf tengdri áhættumati og áhættustýringu fyrirtækja.