Creditinfo hlýtur viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar 2022

Creditinfo er á meðal þeirra 59 fyrirtækja sem hljóta viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar árið 2022. Viðurkenningin er veitt árlega frá Félagi kvenna í atvinnulífinu (FKA).

Creditinfo er á meðal þeirra 59 fyrirtækja sem hljóta viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar árið 2022. Viðurkenningin er veitt árlega frá Félagi kvenna í atvinnulífinu (FKA).

Jafnvægisvogin er hreyfiaflsverkefni unnið í samstarfi með Forsætisráðuneytinu, Sjóvá, Deloitte, Ríkisútvarpinu og Pipar\TBWA. Tilgangur verkefnisins er m.a. að auka á jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja í íslensku viðskiptalífi með það að markmiði að árið 2027 verði hlutfallið á milli kynja a.m.k. 40/60 í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi.

Jafnvægisvogin veitti viðurkenningar til fimmtíu og níu fyrirtækja, sex sveitarfélaga og ellefu opinberra aðila úr hópi þeirra 209 þátttakenda sem hafa undirritað viljayfirlýsingu. Markmið Jafnvægisvogar um 40/60 kynjahlutfall í efsta stjórnendalagi var haft til hliðsjónar við matið. Stór hluti þeirra þátttakenda sem hafa skrifað undir viljayfirlýsingu Jafnvægisvogarinnar hafa náð góðum árangri á þessu sviði og fjölgaði þeim þátttakendum sem hafa náð markmiðunum um 23 á milli ára.

Árið 2021 vann Creditinfo greiningu fyrir Félag kvenna í atvinnulífinu á kynjahlutfalli í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi. Þar kom m.a. fram að konur voru einungis ráðnar framkvæmdastjórar í fjórðungi tilvika árið 2020 og að stórátak þurfi í íslensku atvinnulífi til að áðurnefnt markmið Jafnvægisvogarinnar náist.