Fjárhagsupplýsingar fyrirtækja eru hornsteinn upplýsingagjafar þeirra. Án fjárhagsupplýsinga fyrirtækja er erfitt fyrir haghafa að greina stöðu og þróun þeirra. Við tökum ársreikningum sem sjálfsögðum hlut og byggjum gjarnan mikilvægar ákvarðanir á því sem þar kemur fram, eins og hvort við viljum fjárfesta í viðkomandi fyrirtæki eða lána því fjármagn. Formleg samskipti við fjárfesta eiga sögu að rekja til ársins 1602 þegar Hollenska Austur-Indíafélagið varð fyrsta stórfyrirtækið til að gefa út hlutabréf og hóf samskipti við fjárfesta í gegnum opinbera upplýsingagjöf. Upplýsingagjöf fyrirtækja í því formi sem við þekkjum í dag á þeim mörkuðum sem við helst berum okkur saman við fylgir hinsvegar stöðluðu formi sem sett er fram af Alþjóðlega reikningsskilaráðsinu (IFRS). Upplýsingarnar eru staðlaðar, vel þekktar af markaðsaðilum og kenndar í skólum. US Steel er gjarnan talið fyrsta fyrirtækið til að birta ársreikning í sambærilegu formi og við þekkjum í dag þegar það birti ársreikning árið 1903 fyrir árið 1902 sem var endurskoðaður af Price, Waterhouse & Co.
Auknar kröfur á fyrirtæki að veita fjárhagsupplýsingar opinberlega mættu þó í upphafi hörðu mótlæti. Bæði þótti sú upplýsingagjöf kostnaðarsöm ásamt því að hér væri hið opinbera að teygja sig langt í þeirri kröfu sinni að fyrirtæki skyldu birta ársreikninga opinberlega. Fred Britten, þingmaður Repúblíkana í Bandaríkjunum sagði til dæmis við þinghald að rússavæðing væri að eiga sér stað og gaf til kynna að með því að taka upp Securities Act árið 1933 væru Bandaríkin að taka upp löggjöf sem ætti frekar heima í Sovétríkjunum en hinu frjálsa ríki Bandaríkjunum. Rök Brittens væru ekki tekin gild í dag, enda er upplýsingagjöf til fjárfesta og annara hagaðila vel þegin, mikilvæg og án hennar væru markaðir vestrænna ríkja óskilvirkir, ógagnsæir og ekki eins þróaðir og þeir eru í dag. Flest erum við sammála um það.
Greinandi sem skoðar fjárfestingarkost eða lántaka hefur gjarnan úr nokkru magni af gögnum að moða þökk sé þróun í upplýsingagjöf fyrirtækja þegar kemur að fjárhagslegum þáttum. Fjárhagsmælikvarðar og ýmis hlutföll samsett úr ársreikning eru gjarnan skoðuð og sett í samhengi við atvinnugrein, aldur og framtíðaráætlanir fyrirtækja svo eitthvað sé nefnt. Slíkar æfingar eru gerðar svo hægt sé að taka upplýstari ákvörðanir varðandi hvort fjárfesta eigi í eða lána félaginu fjármagn. Upplýsingar sem birtast í ársreikningum fyrirtækja geta þó ekki aðstoðað greinendur við að átta sig á áhættuþáttum tengdum breytingum á regluverki, áhrifum loftslagsbreytinga á aðgengi að hráefnum eða kostnaði þeirra, umhverfisáhrifum í nærumhverfi eða hjá birgjum, líkum á mannréttindabrotum í virðiskeðju eða öðrum þáttum sem gætu skaðað orðspor fyrirtækis eða valdið því fjárhagslegum skaða ef þeir raungerast.
Sú tegund upplýsinga sem hefur almennt ekki birst í ársreikningum félaga gengur undir ýmsum nöfnum en gjarnan er talað um ófjárhagslegar upplýsingar. Þrátt fyrir að nafnið gefi til kynna að upplýsingar séu ófjárhagslegar er þeim upplýsingum ætlað að varpa ljósi á þætti tengda starfsemi fyrirtækja sem geta ollið auknum kostnaði eða áhættu. Sá kostnaður eða afleiðingar þeirra atburða endurspeglast svo auðvitað í mælikvörðum sem birtast í hinum hefðbundna ársreikning fyrirtækis.
Þróun á ófjárhagslegum upplýsingum hefur verið hröð og á tíðum óreiðukennd. Ákall almennings og fjárfesta eftir slíkum upplýsingum varð hærra í lok síðustu aldar. Sem svar við því kalli hófu fyrirtæki að birta valdar upplýsingar sem gjarnan vörpuðu jákvæðu ljósi á þeirra starfsemi. Gallinn við þær upplýsingar var oft sá að ekki var fjallað um þætti sem raunverulega skiptu máli fyrir starfsemi fyrirtækja, upplýsingarnar voru ekki samanburðarhæfar og að lokum voru gögnin yfirleitt ekki tekin út og sannreynd af þriðja aðila. Það er ljóst að slík upplýsingagjöf þjónar ekki hagsmunum haghafa nema að mjög takmörkuðu leyti og má frekar telja til markaðsstarfs frekar en gagnlegrar og virðisaukandi upplýsingagjafar.
Með tíð og tíma fóru markaðsaðilar að koma sér saman um hvaða upplýsingar væru viðeigandi fyrir mismunandi atvinnugreinar og fóru upplýsingar að birtast með nokkuð samræmdu formi. Stórt skref var einnig tekið þegar kauphallir víðsvegar fóru að óska eftir ófjárhagslegum upplýsingum á samræmdu sniði. Eitt stærsta skrefið var þó tekið þegar Evrópusambandið setti fram reglugerð sem gaf ítarlegar leiðbeiningar um hvaða upplýsingar ættu að birtast í slíkri upplýsingagjöf, hvaða greiningu fyrirtæki ættu að fara í til að finna út viðeigandi mælikvarða og að upplýsingum ætti að miðla á tölvulesanlegu formi í miðlægan gagnagrunn sem sambandið heldur utan um. Samkvæmt upprunalegu útgáfu reglugerðarinnar (CSRD, e. Corporate Sustainability Reporting Directive) voru um 50.000 félög í Evrópu skyldug til að birta ófjárhagslegar upplýsingar. Það eru fyrirtæki sem uppfylla flokkun sambandsins um stór fyrirtæki. Til samanburðar þá eru um 32 milljónir fyrirtækja í Evrópu. Það var því verið að krefja um 0,15% fyrirtækja í Evrópu um ítarlegar ófjárhagslegar upplýsingar. Á Íslandi stefndi í að þau fyrirtæki væru um 300, eða 1,5% af virkum fyrirtækjum í landinu. Aukið hlutfall fyrirtækja hérlendis orsakast af gullhúðun sem regluverk ófjárhagslegra upplýsinga hefur fengið hérlendis og þurfa smærri fyrirtæki að birta ófjárhagslegar upplýsingar hérlendis en í Evrópu. Með þessari reglugerð var Evrópusambandið að auka verulega upplýsingagjöf stórra fyrirtækja um ófjárhagslega þætti sem geta haft fjárhagsleg áhrif á fyrirtækin. Samhliða þeim leiðbeiningum sem sambandið setti fram fyrir stór fyrirtæki voru settar fram leiðbeiningar fyrir smá og meðalstór fyrirtæki sem ekki falla undir téða reglugerð.
Eftir að reglugerðin var sett fram hófu gagnrýnisraddir að heyrast. Helsta gagnrýnin er á þann veg að upplýsingagjöfin sé of kostnaðarsöm og flókin í framkvæmd. Gagnrýni sem rímar vel við gagnrýni Fred Britten á 4. áratug síðustu aldar. Sannleikurinn er hinsvegar sá að þær upplýsingar sem CSRD óskar eftir eru yfirleitt til innan fyrirtækja en þeim ekki miðlað á samræmdan hátt til haghafa. Reglugerðin óskar eftir upplýsingum um stefnur, ferla og mælikvarða sem fyrirtæki telja að geti neikvæð áhrif á þeirra rekstur.
Séu ferlar, stefnur og mælikvarðar ekki til um ófjarhagslega þætti sem fyrirtækja telja sjálf að skipti máli fyrir rekstur þeirra er það eðlilega rautt flagg. Hér er verið að ræða um þætti sem raunverulega skipta haghafa máli. Þætti sem skipta áhættustjóra, viðskiptastjóra, eignstýringaraðila, lánveitendur, viðskiptavini fyrirtækja og almenning máli. Það er því fagnaðarefni að ófjárhagslegar upplýsingar stefni í að birtast á stöðluðu tölvulesanlegu sniði svo hægt sé að greina þær og byggja ákvarðanatöku á.
Höfum í huga að þau fyrirtæki sem falla undir téðar reglur þurfa að uppfylla tvö af eftirfarandi þremur skilyrðum a) hafa fleiri en 250 starfsmenn b) velta yfir 50 milljón evrum (u.þ.b. 7 milljarða króna) og c) eiga eignir meira en 25 milljón evrur (u.þ.b. 3,5 milljarða króna). Hér er því ekki verið að ræða um lítil fjölskyldufyrirtæki eða frumkvöðla sem hefðu eðlilega átt fullt í fangi með þá upplýsingagjöf sem er krafist. Hér er verið að ræða um fyrirtæki sem í flestum tilvikum eiga langa rekstrarsögu, eru með sterka innviði og eiga yfirleitt nú þegar þær upplýsingar sem beðið er um.
Í einhverjum tilvikum er mótvindurinn hugmyndafræðilegs eðlis, þ.e.a.s. að ófjárhagslegar upplýsingar séu afsprengi róttækra umhverfissinna, þegar sannleikurinn er sá að upplýsingarnar eru mest notaðar af fjármálafyrirtækjum og þeim sem stýra fjármagni. Fjármálamarkaðurinn hefur í raun verið það afl sem hefur kallað hvað mest eftir ófjárhagslegum gögnum á stöðluðu formi í stað þeirrar óreiðu sem einkennt hefur þessa upplýsingagjöf hingað til.
Evrópuþingið er nú með til meðferðar breytingar á regluverki ófjárhagslegrar upplýsingagjafar í gegnum svokallaðan Omnibus pakka. Fari þær breytingar óbreyttar í gegnum þingið fækkar fyrirtækjum í Evrópu sem birta þessar mikilvægu upplýsingar úr 50.000 í u.þ.b. 11.000 eða í 0,03% Evrópskra fyrirtækja.
Fyrir haghafa fyrirtækja, svosem hluthafa og aðila sem verða beint eða óbeint af áhrifum vegna starfsemi fyrirtækja, eru þessar upplýsingar lykilupplýsingar. Upplýsingar sem nýtast í verð- og áhættumat og eru nú þegar í ferlum fjölmargra fjármálafyrirtækja og fjárfesta við slík möt.
Evrópusambandið hefði getað farið betri leið. Gefnir hafa verið út svokallaðar vSME leiðbeiningar (e. EFRAG Voluntary Sustainability Reporting Standard for non-listed SMEs). Þeim er ætlað að leiðbeina smærri fyrirtækjum í upplýsingagjöf sinni í gegnum valkvæðar leiðbeiningar. Betra hefði verið ef stórum fyrirtækjum innan þess mengis sem hafði verið skilgreint innan CSRD, en falla nú utan þess, hefði frekar verið beint í þær leiðbeiningar í stað þess að aflétta upplýsingagjöf alfarið. Með því hefðu upplýsingar fyrirtækja enn verið samanburðarhæfar þrátt fyrir að vera mun smærri í sniðum en upphaflega regluverkið sagði til um.
Þrátt fyrir bakslag í regluverki Evrópusambandsins er vert að benda á að fjármálafyrirtæki voru byrjuð að kalla eftir ófjárhagslegum upplýsingum löngu áður en Evrópusambandið hóf innreið regluverks ófjárhagslegrar upplýsingagjafar. Þær upplýsingar hafa verið nýttar til að lágmarka áhættu og jafnvel taka áhættusamar stöður þar sem fjárfestar hafa hér upplýsingar sem áður voru oft ekki til taks. Þeir staðlar og leiðbeiningar sem eru afsprengi regluverks Evrópusambandsins eru ítarlegir og fjölmörg fyrirtæki innan Evrópu (og hérlendis reyndar líka) hafa hafið að birta ófjárhagslegar upplýsingar á stöðluðu sniði. Þau fyrirtæki munu án efa halda því áfram, enda allir ferlar og upplýsingar nú þegar til staðar. Búast má við því að fyrsta árið í slíkri upplýsingagjöf sé þyngst, en með reynslu verði árin á eftir auðveldari. Áðurnefndar vSME leiðbeiningar eru einnig mjög aðgengilegar og búast má við að þær verði nýttar af þúsundum fyrirtækja, bæði í Evrópu og utan álfunnar.
Mikilvægi ófjárhagslegra upplýsinga heldur því áfram að aukast, enda gefa þær haghöfum þær lykilupplýsingar sem óskað er eftir og gefur almennt til kynna að fyrirtæki standi vel, þekki sína starfsemi og skilji áhrif hennar á nærumhverfið.
Reynir Smári Atlason, forstöðumaður sjálfbærni hjá Creditinfo
Grein þessi birtist upphaflega í Viðskiptablaðinu þann 30. apríl 2025.