Ein verðmætasta vísbendingin um fjárhagslegt heilbrigði fyrirtækja er lánshæfismat þeirra. Lánshæfismat Creditinfo byggir á stærsta safni viðskiptaupplýsinga á Íslandi og metur líkur á vanskilum fram í tímann. Með því að nota Lánshæfismat fyrirtækja gefst viðskiptavinum Creditinfo kostur á að grípa fyrr til aðgerða til að lágmarka hættuna á töpuðum kröfum.
Til að tryggja áreiðanleika og gæði vinna sérfræðingar Creditinfo reglulega að endurmati lánshæfismats fyrirtækja. Þann 28. apríl næstkomandi fer uppfærsla á lánshæfismati fyrirtækja í loftið þar sem breytur þess hafa verið betrumbættar.
Hér fyrir neðan er yfirlit yfir helstu breytingar sem fylgja uppfærslunni:
Í hverjum mánuði móttekur Creditinfo upplýsingar um greiðslu 30.000 reikninga frá um 12.000 greiðendum úr greiðsluhegðunarkerfi Creditinfo. Við útreikning á lánshæfismati er athugað hversu margir reikningar eru greiddir og hversu tímanlega.
Í uppfærðu lánshæfismati fyrirtækja er tekið tillit til fjárhæðar þegar litið er til þess hvenær fyrirtæki greiða að jafnaði reikninga. Einnig er tekið tillit til ógreiddra reikninga sem komnir eru yfir eindaga.
Creditinfo hefur að geyma upplýsingar um helstu eigendur allra félaga á Íslandi. Fyrirtæki eru tengd saman með ýmsum leiðum og því hafa þau áhrif á lánshæfismat hvers annars. Við útreikning á lánshæfismati eru fyrirtæki tengd hvort öðru ef þau eru í eigu sömu einstaklinga eða er stýrt af sömu aðilum. Því getur það haft áhrif á lánshæfismat fyrirtækja ef tengd fyrirtæki hafa gott eða slæmt lánshæfismat.
Í uppfærðu mati hefur aðferðafræði við að tengja saman félög verið betrumbætt og er nú betur tekið tillit til þess hvers eðlis tengingin er og áhrifin eru meiri eftir því sem tengsl eru sterkari. Fyrirtækjatengingar eru sérlega sterkur áhrifaþáttur fyrir ný félög og félög sem ekki skila ársreikningum.
Á hverjum degi eru framkvæmdar yfir 2.000 uppflettingar á fyrirtækjum hjá Creditinfo. Þegar slíkar uppflettingar eru gerðar af innheimtuástæðu þá hafa þær mikið spágildi fyrir vanskil og hafa þær því mikið vægi við útreikning lánshæfismats fyrirtækja. Þessu til viðbótar eru um 5.000 fyrirtæki vöktuð af innheimtuaðilum á hverjum tíma. Vert er að taka fram að aðrar uppflettingar en vegna innheimtu hafa mun minni og oft engin áhrif til lækkunar á lánshæfismati.
Í uppfærðu lánshæfismati er litið til nýrrar meðhöndlunar flettinga þarsem markmiðið er að draga enn frekar úr vægi léttvægra flettinga ásamt því að forðast óeðlileg áhrif á stór fyrirtæki þar sem spágildið er takmarkaðra
Til viðbótar við ofangreindar breytingar þá fór fram full endurþjálfun líkansins, nýjum smærri breytum var bætt við, allar gamlar breytur voru yfirfarnar og uppfærðar eða felldar út eftir þörfum. Enn fremur voru mörk lánshæfisflokka löguð aðeins til sem minnkar flokk 4 og stækkar 5 og 6 í staðinn.
Með þessum aðgerðum er tryggt eftir fremsta megni að viðhalda háum tölfræðilegum styrk, þ.e. halda spágetu líkansins sem allra mestri.
Óhjákvæmileg áhrif slíkrar allsherjar uppfærslu er að mörg fyrirtæki færast til um flokka, langoftast upp eða niður um einn flokk.