Fjártæknifyrirtækið Blikk hóf nýlega starfsemi en það sérhæfir sig í greiðslumiðlun sem byggir alfarið á millifærslum í rauntíma. Til að geta náð hratt og örugglega til nýrra viðskiptavina hefur Blikk nýtt Viðskiptabrú Creditinfo til að einfalda og sjálfvirknivæða ferla tengda áreiðanleikakönnunum og umsóknum nýrra viðskiptavina. Samkvæmt Ásgerði Þórunni Hannesdóttur, lögfræðingi hjá Blikk, hefur þessi lausn reynst fyrirtækinu afar vel við að leysa flókin verkefni á skilvirkan hátt.
Áður en Blikk hóf að nota Viðskiptabrúna var ferlið við áreiðanleikakannanir og móttöku umsókna bæði tímafrekt og krafðist mikillar handavinnu. Fyrirtækið notaðist við hefðbundna áskriftarþjónustu hjá Creditinfo til að afla upplýsinga um viðskiptavini en komst fljótt að því að Viðskiptabrúin gæti hjálpað þeim að búa til skilvirkt og sjálfvirkt ferli. „Við gátum búið til ferli þar sem söluaðilar fara í gegnum umsóknarferli hjá Creditinfo og klára áreiðanleikakönnun um leið. Umsóknin fer í gegnum Viðskiptabrúna og allar nauðsynlegar upplýsingar fylgja með, þar á meðal niðurstöður áreiðanleikakönnunarinnar,“ segir Ásgerður.
Þessi lausn hefur gert Blikk kleift að halda betur utan um umsóknir, fara yfir niðurstöður áreiðanleikakannana og vinna með gögn á fljótlegan og öruggan hátt.
Viðskiptabrúin hefur dregið verulega úr handavinnu hjá Blikk og einfaldað alla vinnslu umsókna. Lausnin tekur á móti umsóknum, býr til samninga, sér um undirritun með rafrænum skilríkjum og framkvæmir áreiðanleikakannanir sjálfvirkt. „Kerfið sér um þetta allt án þess að við þurfum að koma að því handvirkt,“ segir Ásgerður. „Við fáum allar upplýsingar sem við þurfum, og umsækjandinn klárar fyrstu áreiðanleikakönnunina á skilvirkan hátt.“
Blikk er í mikilli uppbyggingu og hefur sjálfvirknivæðing ferla verið lykilatriði í því að fyrirtækið geti vaxið hratt. Ásgerður leggur áherslu á að Viðskiptabrúin hafi gert þeim kleift að skala starfsemina með árangursríkum hætti. „Um leið og umsóknum fór að fjölga hjá okkur hjálpar það mjög mikið að vera með sjálfvirka ferla í gegnum Viðskiptabrúna. Það er algjör grundvöllur fyrir fjártæknifyrirtæki í vexti að vera með áreiðanlega sjálfvirka ferla,“ segir hún.
Viðskiptabrú Creditinfo er lausn sem auðveldar fyrirtækjum að bæta þjónustu sína með því að sjálfvirknivæða umsóknar- og afgreiðsluferla. Lausnin tryggir styttri svartíma og bætir ánægju viðskiptavina án þess að fyrirtæki þurfi að fjárfesta í flóknum tæknikerfum eða eyða tíma í handvirk vinnubrögð.
Með Viðskiptabrú nýtast gögn Creditinfo ásamt rafrænni auðkenningu til að tryggja nákvæmni og öryggi í ferlum. Lausnin býður upp á rauntímatilkynningar, ítarlega yfirsýn yfir umsóknarferla og eykur þannig rekjanleika, skilvirkni og öryggi. Fyrirtæki geta veitt betri og hraðari þjónustu, aukið ánægju viðskiptavina og sparað bæði tíma og kostnað.