PwC á Íslandi er ein af stærstu endurskoðendaskrifstofum landsins og starfar undir hatti PwC á alþjóðavísu sem hefur starfsemi í yfir 150 löndum víðs vegar um heiminn. Samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka er PwC á meðal svokallaðra tilkynningarskyldra aðila. Slíkir aðilar þurfa að gera sérstakt áhættumat á viðskiptavinum sínum, framkvæma áreiðanleikakannanir og afla þess vegna ýmissa gagna um viðskiptavini sína til að uppfylla kröfur laganna.
Til þess þarf félagið áreiðanlegar upplýsingar um eignartengsl fyrirtækja, stjórnmálaleg tengsl einstaklinga, stöðu einstaklinga gagnvart alþjóðlegum þvingunarlistum o.fl. Slík gagnaöflun er bæði flókin og tímafrek og því hefur PwC verið á meðal fjölmargra viðskiptavina sem nýta Áreiðanleikamat Creditinfo fyrir framkvæmd áreiðanleikakannana og umsýslu gagna um viðskiptavini.
Að sögn Söru Henný Arnbjörnsdóttur, endurskoðanda og meðeiganda hjá PwC, hefur Áreiðanleikamatið reynst mjög vel til að tryggja fylgni við lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. „Við notum Áreiðanleikamatið til að framkvæma áhættumat á öllum okkar viðskiptavinum áður en til samningssambands er stofnað,“ segir Sara. „Við notum Áreiðanleikamatið á hverjum degi fyrir bæði nýja viðskiptavini og einnig í tengslum við vöktun á núverandi viðskiptavinum okkar. Regluverkið á Íslandi og PwC á alþjóðavísu gera kröfu um að við vöktum viðskiptasambönd okkar. Við þurfum því að skoða reglulega hvort t.d. raunverulegur eigandi sé kominn með stjórnmálaleg tengsl eða á þvingunarlista. Þá er mikilvægt að hafa alltaf aðgang að Áreiðanleikamatinu til að vakta breytingar á viðskiptavinum.“
Sara bætir því við að einn helsti kosturinn við Áreiðanleikamatið sé að kerfið dragi verulega úr allri handavinnu. „Nú erum við komin með sjálfvirkara ferli með aðstoð Creditinfo sem gerir okkur kleift að fletta upp stjórnmálalegum tengslum, stöðu gagnvart þvingunarlistum, bæði á Íslandi og erlendis, dómaniðurstöðum og fjölmiðlaumfjöllun einungis með nokkrum smellum inni í Áreiðanleikamati viðkomandi viðskiptavinar sem sækir í viðeigandi gagnagrunna.“
Kröfur laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka snúa ekki aðeins að gagnaöflun heldur einnig öruggri varðveislu og umsýslu gagna. Sara segir Áreiðanleikamatið sérstaklega vel til þess fallið að styðja við umsýslu gagna um viðskiptavini. „Ef ég er í einhverjum vafa get ég leitað eftir nafni viðskiptavinar í heildarlista Áreiðanleikamats og séð hverju var flett upp, dagsetningu Áreiðanleikamats og hvaða starfsmaður aflaði upplýsinganna,“ segir Sara. „Svo er mjög gagnlegt að rafrænar auðkenningar viðskiptavina eru hengdar við áreiðanleikamat þeirra. Þannig er auðvelt að sjá hvort viðeigandi aðili sé búinn að sanna á sér deili fyrir hönd viðskiptavinar. Þetta er frábær viðbót þar sem viðskiptavinir geta sannað á sér deili með einföldum hætti í stað þess að kalla eftir afriti af viðeigandi skilríkjum og vista á öruggum stað. Áreiðanleikamat CreditInfo hefur einfaldað okkar verklag við framkvæmd áhættumats á okkar viðskiptavinum og aukið skilvirkni til muna,“ segir Sara að lokum.
Áreiðanleikamat Creditinfo gerir tilkynningarskyldum aðilum kleift að kanna áreiðanleika viðskiptamanna sinna með ítarlegum hætti, senda á þá áreiðanleikakönnun sem þeir svara með rafrænni auðkenningu, kanna hvort þeir séu í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla eða á alþjóðlegum þvingunarlistum.
Með Áreiðanleikamati Creditinfo fær tilkynningarskyldur aðili góða yfirsýn yfir allt það helsta sem honum ber að kanna við mat á áreiðanleika viðskiptamanna sinna skv. lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka nr. 140/2018 og skv. lögum um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjármuna nr. 68/2023.