
Í átta ár hefur Creditinfo veitt sérstök hvatningarverðlaun fyrir sjálfbærni þeim fyrirtækjum sem þykja skara fram úr á því sviði í hópi Framúrskarandi fyrirtækja.
Sjálfbærni skiptir okkur miklu máli og við trúum því að öll Framúrskarandi fyrirtæki þurfi að huga að sjálfbærni með markvissum hætti. Hvatningarverðlaununum er því ætlað að draga fram fyrirmyndirnar sem geta verið öðrum hvatning á þessu sviði.
Verðlaunin eru veitt á sama tíma og listinn er gerður opinber ár hvert.


Árið 2025 hlaut Brim hf. hvatningarverðlaun um framúrskarandi framtak á sviði sjálfbærni.
Í umsögn dómnefndar segir að félagið hefur sýnt með skýrum hætti hvernig sjálfbærni og fjárhagslegur árangur eru ekki aðskildir þættir heldur samtvinnaðir drifkraftar í rekstri fyrirtækisins.
Verkefnið sem hlotið hefur viðurkenninguna er 33 milljarða króna endurfjármögnun með sambankaláni í samstarfi við þrjár alþjóðlegar fjármálastofnanir, Rabobank, Nordea og DNB. Í lánaskilmálum félagsins eru innbyggðir hvatar sem stuðla að aukinni áherslu á sjálfbærni sem byggja á mælanlegum árangursvísum á sviði umhverfis-, félags- og stjórnarhátta (UFS), sem ákvarða lánakjörin í samræmi við stefnu og markmið Brims.
Árangursvísarnir taka meðal annars til losunar gróðurhúsalofttegunda í tengslum við veiðar, þar sem Brim hefur verið frumkvöðull í gagnsærri upplýsingagjöf. Hvatar lánasamningsins styðja jafnframt við markmið félagsins um aukna verðmætasköpun, lægra kolefnisspor og bætt öryggi í framleiðslu og dreifinguafurða félagsins.
Brim hefur birt sjálfbærnigögn samkvæmt GRI staðli frá árinu 2017 og nýverið birt CSRD gagnapakka í sjálfbærni-og ársskýrslu félagsins, sem tryggir samanburðarhæfar og sannreynanlegar upplýsingar um sjálfbærni í takt við nýjar kröfur Evrópusambandsins.
Dómnefndin telur verkefni Brims vera til fyrirmyndar enda sýnir það á áþreifanlegan hátt hvernig árangur í sjálfbærni er nátengdur fjárhagslegum hvötum og árangri félagsins. Það er ánægjulegt að sjá að hjá Brim er sjálfbærni orðin samofin daglegum rekstri, stefnu og framtíðarsýn félagsins.
Hvatningarverðlaunin eru veitt samhliða birtingu lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki 2025. Dómnefnd vann úr lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki sem sýndu fram á skýra stefnu um samfélagsábyrgð, sjálfbærni, kynjajafnrétti og réttindi starfsfólks. Verðlaunin eru unnin í samstarfi við Festu – miðstöð um sjálfbærni. Í dómnefnd sátu Erla Ósk Ásgeirsdóttir formaður dómnefndar, fulltrúi Festu - miðstöðvar um sjálfbærni, Bryndís Björk Ásgeirsdóttir, fulltrúi Háskólans í Reykjavík og Ragnheiður Geirsdóttir, fulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands.







„Ég er mjög ánægður með þessa vottun og þá möguleika sem hún gefur. Ég hef aldrei auglýst mitt fyrirtæki og hef engan áhuga á að vera áberandi, en það sem þetta hefur gefið mér er að fyrirtækið hefur notið talsvert meiri trúverðugleika í samskiptum við nýja viðskiptamenn og sérstaklega samningum við nýja birgja.Traust hvað varðar greiðslukjör hefur snarstyrkst við þessa viðurkenningu.Takk fyrir mig.“

