Nýtt starfsleyfi Creditinfo til vinnslu fjárhagsupplýsinga tekur gildi 10. maí 2021.

Persónuvernd hefur gefið út starfsleyfi Creditinfo til vinnslu upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga og lögaðila. Starfsleyfið gildir til 31. desember 2022.

Skilmálar og greinargerð með skilmálunum er aðgengileg á vef Persónuverndar.

Starfsleyfið var sett í umsagnarferli síðastliðið haust, sjá umsagnir til Persónuverndar.

Helstu breytingar frá fyrra leyfi eru eftirfarandi:

Skráning upplýsinga á vanskilaskrá

  • Fjárhæðarmörkum vegna skráninga upplýsinga á vanskilaskrá hefur verið breytt. Þau fara úr kr. 50.000 í kr. 60.000. Þannig er ekki heimilt að skrá upplýsingar frá áskrifendum eða upplýsingar um dóma og áritaðar stefnur nema skuld nemi a.m.k. kr. 60.000 að höfuðstól, þ.e. fjárhæð að undanskildum vöxtum og öðrum kostnaði, þ.m.t. innheimtukostnaði.
  • Sérstaklega er tekið fram í greinargerð að hver krafa þurfi að ná framangreindum fjárhæðarmörkum, þ.e. að ekki verði hægt að leggja saman fleiri en eina kröfu undir fjárhæðamörkum til að þeim verði náð.
  • Til að skrá megi kröfu á vanskilaskrá þarf löginnheimta að vera hafin. Eins og fram kemur í greinargerð með skilmálunum nægir að send hafi verið út tilkynning lögmanns, sem samrýmist góðum lögmannsháttum, sbr. 1. mgr. 24. gr. a, í lögum 77/1998 um lögmenn.
  • Þá er þess getið í greinargerð að tilkynningar, viðvaranir og aðrar aðgerðir sem tengjast frum- og milliinnheimtu, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 95/2008, geta aldrei orðið grundvöllur vanskilaskráningar.
  • Heimildir áskrifenda til skráninga á vanskilaskrá eru tæmandi taldar upp í grein 2.2.2

Vöktun

Vöktun er háð því skilyrði að hún sé nauðsynleg vegna innheimtu krafna skv. innheimtulögum og lögum um lögmenn, eða í þágu áhættustýringar vegna fjárhagslegrar fyrirgreiðslu. Þegar vöktun þjónar áhættustýringu skal hinn skráði hafa fengið skýra, skriflega eða rafræna fræðslu um vöktunina og skal liggja sannanlega fyrir að sú fræðsla hafi verið veitt, áður en samningssamband um fjárhagslega fyrirgreiðslu kemst á.

Lánshæfismat

Þeir áskrifendur sem veita fjárhagslega fyrirgreiðslu geta aflað lánshæfismats fyrir einstaklinga hjá Creditinfo. Skilyrði er að viðkomandi einstaklingur hafi lagt fram beiðni um öflun lánshæfismatsins. Þegar beiðni er lögð fram skal liggja fyrir skrifleg eða rafræn fræðsla um vinnslu persónuupplýsinga við gerð lánshæfismats. Fræðslu um vinnslu lánshæfismats er að finna á vef Creditinfo sem áskrifendur geta vísað til í þessu sambandi. Nánari upplýsingar um áhrifaþætti geta einstaklingar nálgast á mitt.creditinfo.is.

Samkvæmt fyrra starfsleyfi var Creditinfo heimilt að nýta fyrrum skráningar á vanskilaskrá við vinnslu lánshæfismats í allt að fjögur ár frá skráningardegi. Samkvæmt nýju starfsleyfi er nú miðað við að nota megi fyrri skráningu um vanskil í eitt ár frá afskráningu þeirra.

Verklagsreglur

Í starfsleyfi kemur fram að áskrifendur skuli setja sér verklagsreglur um notkun upplýsinga frá Creditinfo þar sem m.a. er lýst ráðstöfunum til að tryggja að:

  • áskrifandi, sem nýtir sér þjónustu fjárhagsupplýsingastofu vegna veitingar fjárhagslegrar fyrirgreiðslu, ábyrgist að upplýsingaöflun og kennitöluvöktun helgist ávallt af lögmætum hagsmunum vegna slíkra viðskipta og, eftir atvikum, lagaskyldu.
  • áskrifandi, sem nýtir sér þjónustu fjárhagsupplýsingastofu vegna innheimtu krafna, ábyrgist að uppflettingar og kennitöluvöktun helgist ávallt af lögmætum hagsmunum vegna slíkrar starfsemi.

Starfsfólk Creditinfo hefur gert nauðsynlegar ráðstafanir til að innleiða þær breytingar sem nýju starfsleyfi fylgja. Við vekjum athygli á því að mikið af fræðslu um vörur og þjónustu Creditinfo má finna á vef okkar og bloggi. Áskrifendum er bent á að hafa samband við viðskiptastjóra eða þjónustuver Creditinfo, creditinfo@creditinfo.is ef óskað er frekari upplýsinga.