Creditinfo fær upplýsingaþjónustuleyfi í Eistlandi

Leyfið er hluti af greiðslumiðlunartilskipun ESB. Tilskipuninni er ætlað að samræma reglur, bæta neytendavernd og auka samkeppni í greiðslumiðlun á evrópska efnahagssvæðinu.

Eistneska fjármálaeftirlitið hefur veitt Creditinfo upplýsingaþjónustuleyfi (AISP) í Eistlandi. Leyfið, sem gildir á evrópska efnahagssvæðinu (EES), gerir Creditinfo kleift að bjóða þjónustuna á öllum mörkuðum innan svæðisins.

Með upplýsingaþjónustuleyfinu getur Creditinfo veitt milligöngu um miðlun reiknings-upplýsinga með samþykki reikningseigenda. Tilskipunin hefur leitt af sér mikla nýsköpun og vöruþróun á sviði greiðslumiðlunar í ríkjum Evrópusambandsins síðan hún var innleidd þar árið 2018. Creditinfo stefnir í framhaldinu á að útvíkka leyfið til allra sinna markaða á evrópska efnahagssvæðinu, þar með talið Íslands þegar lög um greiðsluþjónustu taka gildi hér.

Brynja Baldursdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo á Íslandi:

„Með aukinni notkun öruggrar upplýsingamiðlunar hefur á síðustu árum átt sér stað umbylting á íslenskum lánamarkaði, neytendum til mikilla hagsbóta. Öll afgreiðsla er orðin mun hraðari og lánveitingar ábyrgari. Þegar greiðslumiðlunartilskipunin verður innleidd í íslensk lög hlökkum við til að geta verið með þeim fyrstu til að bjóða íslenskum lánveitendum að byggja sínar ákvarðanir á enn betri upplýsingum, til viðbótar við þær sem stuðst er við í dag, kjósi lántakinn að deila þeim. Creditinfo hefur áralanga reynslu af miðlun fjárhagsupplýsinga og uppfyllir allar kröfur um öryggisstaðla og persónuverndarferla sem gerðar eru til slíkra miðlara. Við gerum líka ráð fyrir því að geta notað reynsluna frá Eistlandi, þar sem við byrjum strax að miðla þessum gögnum, íslenska markaðnum til góða.“

Gunnar Gunnarsson, forstöðumaður greiningar og ráðgjafar hjá Creditinfo:

„Reikningsgögnin sem tilskipunin nær til, það er staða og hreyfingar á bankareikningum, gera fólki kleift að miðla skýrari mynd af fjárhagsstöðu sinni. Við hjá Creditinfo teljum að slík gögn muni nýtast vel, ásamt öðrum hefðbundnum gögnum, til að meta lánshæfi. Það mun leiða til enn ábyrgari lánveitinga og möguleika á meiri sjálfvirknivæðingu á lánamarkaði. Eftir því sem einstaklingar hafa aðgang að meiri gögnum um sjálfa sig og geta miðlað þeim á einfaldan hátt til þeirra sem þurfa að meta lánshæfi, þá eykst traust og vissa um ákvarðanir.“

Upplýsingaþjónustuleyfi Creditinfo er hluti af greiðslumiðlunartilskipun Evrópusambandsins (PSD2) sem stefnt er að innleiða sem lög hér á landi í sumar. Markmið tilskipunarinnar er að samræma reglur sem gilda um greiðsluþjónustu á evrópska efnahagssvæðinu og auka þannig neytendavernd og samkeppni í greiðsluþjónustu.