Valka og Vörður hlutu verðlaun Creditinfo fyrir Framúrskarandi nýsköpun og samfélagsábyrgð

Tæknifyrirtækið Valka hlaut hvatningarverðlaun Creditinfo fyrir framúrskarandi nýsköpun og tryggingafélagið Vörður fékk verðlaun fyrir framúrskarandi árangur á sviði samfélagsábyrgðar. Verðlaunin voru afhent forsvarsmönnum fyrirtækjanna í höfuðstöðvum þeirra í morgun. Verðlaunin fyrir samfélagsábyrgð eru veitt í samstarfi við Festu - miðstöð um samfélagsábyrgð og nýsköpunarverðlaunin eru í samstarfi við Icelandic Startups.

Hvatningarverðlaunin eru veitt samhliða birtingu lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki. Markmið viðurkenninganna er að vekja athygli á mikilvægi nýsköpunar hjá rótgrónum fyrirtækjum annars vegar og hins vegar að vekja athygli á því að framúrskarandi rekstur felur í sér að fyrirtæki hafi jákvæð áhrif á umhverfið og samfélagið sem þau starfa í og hámarki þannig fjárhagslegan árangur sinn.

„Með því að veita sérstök verðlaun fyrir Framúrskarandi samfélagsábyrgð og Framúrskarandi nýsköpun viljum við hvetja fyrirtæki til góðra verka í þessum efnum,“ segir Brynja. „Þar sem erfitt er að mæla þessa þætti með beinum hætti fórum við þá leið að setja saman dómnefnd í hvorum flokki fyrir sig sem greinir Framúrskarandi fyrirtæki með tilliti til þessara þátta. Okkur þótti mikilvægt að sem faglegasta nálgunin væri farin við að velja þau fyrirtæki sem fá verðlaunin og við höfum átt frábært samstarf við Festu og Icelandic Startups um að skipa dómnefndirnar fagfólki og þróa mælikvarðana ár frá ári. Okkar von er sú að verðlaunin dragi fram fyrirmyndir í samfélagsábyrgð og nýsköpun í rekstri,“ segir Brynja Baldursdóttir framkvæmdastjóri Creditinfo.

„Nýsköpun er hjarta fyrirtækisins, frá stofnun þess hefur höfuðáhersla fyrirtækisins verið á vöruþróun og að markaðsetja vörur og kerfi sem skapa aukin verðmæti. Við leggjum áherslu á að vinna náið með okkar viðskiptum við að móta mikilvægustu verkefnin og notum svo nýjustu tækni hverju sinni til að ná fram þeim markmiðum sem við settum okkur. Búnaður Völku hefur breytt fiskiðnaðinum umtalsvert á allra síðustu árum. Það má því segja að Valka stundi umbyltandi nýsköpun. Hæft starfsfólk, trú eigenda á verkefninu og afar náið samstarf við framsæknustu fyrirtækin í greininni eru lykillinn að árangrinum,“ segir Helgi Hjálmarsson, framkvæmdastjóri Völku.

„Verðlaunin eru mikil viðurkenning fyrir okkar starf og góð hvatning fyrir starfsfólk Varðar. Frá því Vörður birti fyrstu umhverfisstefnu sína árið 2012 hefur félagið einsett sér að vera til fyrirmyndar í íslensku atvinnulífi og taka virkan þátt í að efla umhverfismál, félagslega þætti og ábyrga stjórnarhætti. Okkur er jafnframt umhugað að sýna frumkvæði og ábyrgð í þessum málum og höfum sett okkur það markmið að taka þátt í vegferðinni af krafti og stíga ákveðin skref í átt að sjálfbærni. Það er einnig stefna okkar að vinna að heilindum að sjálfbærnimálum sem stuðla að sjálfbærri þróun íslensks samfélags ásamt því að styðja við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Þannig stöndum við vörð um samfélagið,“ segir Guðmundur Jóhann Jónsson framkvæmdastjóri Varðar.

Valka hlýtur viðurkenningu fyrir nýsköpun í rótgrónu fyrirtæki

Það var mat dómnefndar að Valka sé einstakt dæmi um fyrirtæki sem komið er vel á legg en gefur ekkert eftir með öflugu rannsóknar- og þróunarstarfi sem stuðlar að hugvitsdrifnum hagvexti og skapar fjölda verðmætra starfa. Horft er til ýmissa þátta við mat dómnefndar á borð við nýnæmi, vöxt og útflutningstölur, rannsóknarstyrki, einkaleyfi, og hvernig nýsköpun er almennt háttað í daglegri starfsemi fyrirtækisins.

Það segir meðal annars í úrskurði dómnefndar að Valka hafi náð að skipa sér í fremstu röð á alþjóðavísu í þjónustu við sjávarútveg. Fyrirtækið nýtir tækniframfarir á sviði vinnslubúnaðar, hugbúnaðar og gervigreindar til að hámarka framleiðslu og nýtingu á sjávarafurðum. Fyrirtækið starfar á alþjóðamarkaði og selur vörur og þjónustu víðsvegar í Evrópu og Bandaríkjunum. Yfir helmingur tekna Völku kemur erlendis frá. Velta fyrirtækisins hefur þrefaldast frá árinu 2017 og var árið 2019 rúmir 3 milljarðar króna. Þessi mikli vöxtur er að stórum hluta drifinn áfram af nýsköpun. Auknu fjármagni hefur verið veitt í rannsóknar og þróunarstarf undanfarin ár og nam hlutfallið um 14% af veltu síðasta rekstrarárs. Bæði hér heima og erlendis hefur Valka unnið náið með háskólum og matvælastofnunum og hlotið ýmsa rannsóknarstyrki s.s. Rannís og Horizon 2020. Valka hefur veðjað á sjálfvirknivæðingu með samþættingu véla og vélmenna við hugbúnaðarlausnir. Fyrirtækið á sjö skráð einkaleyfi og er með fimm alþjóðlegar umsóknir í ferli. Hjá Völku starfa yfir 100 manns, öflugur hópur með menntun á sviði vísinda og iðngreina og rík áhersla lögð á jafnan hlut kynja í stjórnendateymi félagsins.

Í dómnefnd sátu Ragnheiður H. Magnúsdóttir, ráðgjafi í upplýsingatækni, Ólafur Andri Ragnarsson, aðjúnkt við Háskólann í Reykjavík og Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups.

Vörður hlýtur viðurkenningu fyrir Framúrskarandi samfélagsábyrgð

Í úrskurði dómnefndar kemur fram að Vörður sé búið að vinna markvisst að því að innleiða samfélagslega ábyrgð í starfsemina frá árinu 2012 og hefur sett sér mælanleg og skýr markmið þar sem horft er til allra þátta. Fyrirtækið fylgir eftir Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og horfir til sjálfbærnisjónarmiða við fjárfestingar og í samstarfi við birgja. Markmið félagsins varða ekki eingöngu fjárhaginn heldur ná þau einnig til umhverfismála, félagslegra þátta og stjórnarhátta. Árlega gefur Vörður út sjálfbærniskýrslu sem unnin er samkvæmt UFS (umhverfisþáttum, félagslegum þáttum og stjórnarháttum) viðmiðum Nasdaq. Vörður leggur áherslu á þá málaflokka innan UFS sem félagið getur haft mest áhrif á og eru viðeigandi og mikilvægir fyrir kjarnastarfsemina. Vörður er alhliða vátryggingafélag sem hefur það að markmiði að bjóða viðskiptavinum viðeigandi vátryggingavernd. Vöxtur og viðgangur Varðar hefur verið góður undanfarin ár. Grunnurinn er traustur og félagið býr yfir ákaflega góðum og metnaðarfullum hópi starfsfólks sem telur 108 manns. Vörður var fyrst fjármálafyrirtækja til að hljóta jafnlaunavottun og hefur starfsemin verið kolefnisjöfnuð frá árinu 2013.

Í dómnefnd sátu Sæmundur Sæmundsson, sjálfstætt starfandi, Gréta María Grétarsdóttir, verkfræðingur og Gunnar Sveinn Magnússon sérfræðingur í sjálfbærni.