Vegna rangfærslna í fréttum RÚV þriðjudaginn 7.maí

Creditinfo vill koma eftirfarandi á framfæri vegna umfjöllunar RÚV um skráningu færslna vegna smálánaskulda á vanskilaskrá.

Rangt er með farið í fréttum RÚV að ekki sé hægt að taka einstaklinga af vanskilaskrá fyrr en þeir hafi greitt kröfurnar og þar með viðurkennt þær.

Creditinfo tekur af vanskilaskrá eða færir ekki inn skráningu vegna vanskila ef einstaklingur andmælir henni. Einstaklingar fá sendar tilkynningar um fyrirhugaðar skráningar 17 dögum áður en færsla fer á skrá, þar sem m.a. er kveðið á um andmælarétt. Hægt er að andmæla skráningu á vefsíðu Creditinfo þar sem viðkomandi skráir sig inn með rafrænum skilríkjum á mitt.creditinfo.is. Á síðunni er jafnframt hægt að hafa beint sambandi við fulltrúa Creditinfo með því að smella á hnappinn; Hafa samband.

„Það eru dæmi um að færslur vegna smálána hafi verið teknar af vanskilaskrá þótt lán hafi ekki verið greidd upp. Berist andmæli við hvort sem er skráningum eða fyrirhuguðum skráningum, sem ekki hafa verið staðfestar með opinberum gjörðum, s.s. árituðum stefnum og dómum, þá eru slíkar skráningar afskráðar af vanskilaskrá. Samkvæmt starfsleyfi er vinnsla um umdeildar skuldir óheimil ef skuldari hefur sannanlega komið andmælum við skuld á framfæri við kröfuhafa, greint honum frá ástæðu andmælanna og skuldin hefur ekki verið staðfest með aðfararhæfum dómi eða aðfararhæfri ákvörðun sýslumanns sem birt hefur verið í opinberri auglýsingu. Er það í samræmi við starfsleyfi félagsins sem gefið er út af Persónuvernd,“ segir Laufey Jónsdóttir, persónuverndarfulltrúi og lögfræðingur hjá Creditinfo.