Uppfærsla á lánshæfismati fyrirtækja

Uppfærsla á lánshæfismati fyrirtækja átti sér stað miðvikudaginn 12. október og er breytingin liður í að styrkja áreiðanleika og spágetu matsins enn frekar.

Helstu breytingar sem verða á lánshæfismatinu eru:

  • Núna eru samlagsfélög (slf.) og sameignarfélög (sf.) einnig lánshæfismetin en áður voru eingöngu hlutafélög (hf.), einkahlutafélög (ehf.) og samvinnufélög (svf.) metin.
  • Meðhöndlun flettinga hefur verið breytt, með nýju líkani er horft meira í ástæður uppflettinga og léttvægustu flettingarnar hafa ekki áhrif á lánshæfismat.
  • Tengsl milli fyrirtækja hafa verið dýpkuð umtalsvert. Fyrirtæki eru nú tengd ef þau eru í eigu sömu einstaklinga en eign í félögum er rakin alveg niður til endanlegra eigenda. Tengingum milli fyrirtækja fjölgar því verulega.
  • Í ársreikningum er horft lengra aftur í tímann til að verðlauna stöðugleika yfir langan tíma.
  • Nú er einnig horft á neikvæðar athugasemdir í ársreikningi.
  • Breyttar aukareglur:
    • Fyrirtæki sem hafa fengið bréf um tilvonandi skráningu á vanskilaskrá geta ekki fengið betra lánshæfismat en 9.
    • Skilaskyld félög sem eiga ekki nýlegan ársreikning fá ekki betra lánshæfismat en 6.
    • Félög sem fara af vanskilaskrá vegna fyrningar fá ekki betra lánshæfismat en 5.
    • Ekki er lengur þak á lánshæfismatinu vegna neikvæðs eiginfjár.