Tilkynning um breytingu á skilyrðum

Frá upphafi hefur eitt af skilyrðum fyrir því að komast á listann yfir Framúrskarandi fyrirtæki verið að skila ársreikningi fyrir 31. desember á uppgjörsári. Breyting verður á því fyrir Framúrskarandi fyrirtæki 2016 en þá þurfa fyrirtæki að vera búin að skila ársreikningi eigi síðar en 31. ágúst til þess að koma til greina.



Tilkynning um breytingu á skilyrðum
Frá árinu 2010 hefur Creditinfo unnið ítarlega greiningu á rekstri íslenskra fyrirtækja og birt lista yfir þau fyrirtæki sem eru til fyrirmyndar. Á síðasta ári töldust 682 fyrirtæki af þeim 35.842 sem eru í hlutafélagaskrá til Framúrskarandi fyrirtækja 2015.

Þessi greining og listinn yfir Framúrskarandi fyrirtæki eru mikilvæg fyrir orðspor fyrirtækjanna sjálfra og ekki síður fyrir atvinnulífið í heild. Aukin þekking á starfsemi fyrirtækja eykur traust á þeim sem standa sig vel og verður öðrum hvatning til að gera betur. Allt stuðlar þetta að bættu viðskiptaumhverfi og öruggari rekstri á Íslandi.

Breyting á skilyrðum
Frá upphafi hefur eitt af skilyrðum fyrir því að komast á listann yfir Framúrskarandi fyrirtæki verið að skila ársreikningi fyrir 31. desember á uppgjörsári. Breyting verður á því fyrir Framúrskarandi fyrirtæki 2016 en þá þurfa fyrirtæki að vera búin að skila ársreikningi eigi síðar en 31. ágúst til þess að koma til greina.

Til að geta talist Framúrskarandi þarf fyrirtæki að standast eftirtalda mælikvarða:

  • Hafa skilað ársreikningum til RSK síðustu þrjú ár
  • Er í lánshæfisflokki 1 til 3
  • Að sýna rekstrarhagnað (EBITDA) þrjú ár í röð
  • Að ársniðurstaða sé jákvæð þrjú ár í röð
  • Rekstrarform ehf., hf. eða svf.
  • Eiginfjárhlutfall sé 20% eða meira þrjú rekstrarár í röð
  • Að eignir séu 80 milljónir eða meira þrjú ár í röð
  • Skráður framkvæmdastjóri í hlutafélagaskrá
  • Að vera virkt fyrirtæki skv. skilgreiningu Creditinfo

Skylt er samkvæmt lögum að skila ársreikningi til RSK fyrir 1. september. Þótt viðurlögum hafi almennt ekki verið beitt fyrr en að loknu áminningarferli og oft gefinn ríflegur frestur, stendur vilji löggjafans til að herða reglurnar frekar en hitt. Það er enda í samræmi við góða og ábyrga stjórnunarhætti að fara að lögum og reglum um þetta atriði sem önnur. Því þótti ekki nema sjálfsagt að gera þá kröfu til Framúrskarandi fyrirtækja að skil á ársreikningi séu lögum samkvæmt.

Meira um Framúrskarandi fyrirtæki

Kveðja, starfsfólk Creditinfo