Trackwell og BYKO hljóta hvatningarverðlaun Creditinfo

Tæknifyrirtækið Trackwell fær hvatningarverðlaun Creditinfo fyrir framúrskarandi nýsköpun og byggingavöruverslunin BYKO fær verðlaun fyrir framúrskarandi árangur á sviði samfélagsábyrgðar.

Tæknifyrirtækið Trackwell fær hvatningarverðlaun Creditinfo fyrir framúrskarandi nýsköpun og byggingavöruverslunin BYKO fær verðlaun fyrir framúrskarandi árangur á sviði samfélagsábyrgðar.

Verðlaunin voru afhent forsvarsmönnum fyrirtækjanna í Hörpu í dag þar sem fram fer kynning Creditinfo á Framúrskarandi fyrirtækjum. Verðlaunin fyrir samfélagsábyrgð eru veitt í samstarfi við Festu - miðstöð um samfélagsábyrgð og nýsköpunarverðlaunin eru í samstarfi við Icelandic Startups.

Hvatningarverðlaunin eru veitt samhliða birtingu lista Creditinfo yfir Framúrskarandi fyrirtæki. Markmið viðurkenninganna er að vekja athygli á mikilvægi nýsköpunar hjá rótgrónum fyrirtækjum annars vegar og hins vegar að vekja athygli á því að framúrskarandi rekstur felur í sér að fyrirtæki hafi jákvæð áhrif á umhverfið og samfélagið sem þau starfa í og hámarki þannig fjárhagslegan árangur sinn.

„Verðlaun þessi eru liður í viðleitni Creditinfo til að hvetja fyrirtæki til góðra verka á sviði samfélagsábyrgðar og nýsköpunar. Um er að ræða matskennda þætti og því hefur verið farin sú leið að skipa dómnefnd í hvorum flokki til að tryggja faglega nálgun við veitingu verðlaunanna. Um þróun mælikvarða og skipan dómnefnda frá ári til árs höfum við átt í farsælu samstarfi við Festu og Icelandic Startups. Við óskum Trackwell og BYKO hjartanlega til hamingju með góðan árangur og hlökkum til þess að sjá enn fleiri fyrirtæki skara fram úr á sviði nýsköpunar og samfélagsábyrgðar þegar fram líða stundir,“ segir Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo á Íslandi.

„Nýsköpun er grunnur að árangri Trackwell. Nýsköpun er í dag orðin innbyggð í menningu fyrirtækisins og vinnur starfsfólk Trackwell með viðskiptavinum og samstarfsaðilum að því að finna og leysa nýjar áskoranir sem skila sér í lausnum sem stuðla að sjálfbærni, betri nýtingu og hagræðingu. Verðlaunin eru mikil viðurkenning fyrir starfsfólk Trackwell og viðskiptavini. Við erum mjög þakklát Creditinfo og Icelandic Startups að taka eftir þessum árangri sem hvetur okkur til enn frekari nýsköpunar,“ segir Jón Ingi Björnsson, framkvæmdastjóri Trackwell.

„Afar ánægjulegt er að sjá að viðleitni okkar og stefnu á sviði samfélagsábyrgðar, sem við erum mjög stolt af, vekja eftirtekt. Við fögnum þessum verðlaunum sem eru okkur mikil viðurkenning og hvatning til áframhaldandi góðra verka. Umhverfismál og sjálfbærni hafa lengi verið eigendum BYKO hugleikin og má nefna að 34 ár eru síðan fyrirtækið hóf að rækta skóg á Drumboddsstöðum í Biskupstungum. Fyrir ári síðan var skóglendið svo kortlagt og kolefnisbinding þess metin með viðurkenndum og vísindalegum hætti. Við setjum okkur metnaðarfull markmið, mælum svo og birtum árangurinn. Með því að setja markið hátt trúum við því að árangurinn verði bestur,“ segir Sigurður Brynjar Pálsson, forstjóri BYKO.