Lánshæfismat Creditinfo fyrir einstaklinga

Ný lög um neytendalán taka gildi 1. nóvember næstkomandi. Þau tryggja neytendum m.a. aukinn rétt til upplýsinga, til dæmis þegar vöxtum er breytt, og gera ríkari kröfur um mat lánveitenda á lánshæfi lántakenda.

Lögin gilda um meginþorra allra lánveitinga til neytenda, s.s. lífeyrissjóðs-, íbúða-, bíla-, raðgreiðslu- og yfirdráttarlán. Í þeim er gerð krafa um lánshæfismat og, eftir fjárhæð viðskiptanna, einnig greiðslumat.

Creditinfo býður lánshæfismat fyrir einstaklinga byggt á traustum upplýsingum úr gagnagrunnum félagsins. Framkvæmd matsins er einföld og fljótleg og byggir á upplýstu samþykki hlutaðeigandi viðskiptavinar. 

Í reiknings- og lánsviðskiptum er mikilvægt að vinnubrögð séu samhæfð við lánshæfismat einstaklinga.  Með þeim hætti er hægt að tryggja að einstaklingar sitji við sama borð og þeim sé þá best umbunað sem skilvísastir eru, óháð meðal annars tekjum, stöðuheiti eða tengslum

Með lánshæfismati er einnig öruggara að ákvörðun um lánveitingu eða kjör byggi á nýjum upplýsingum, að matið fari ekki fram huglægt, að það sé samanburðarhæft við aðra viðskiptavini og framkvæmt á augabragði.

Lánshæfismat má ekki sækja nema fyrir liggi heimild einstaklingsins til þess að skoða þessar upplýsingar. Þeir aðilar sem geta nýtt sér lánshæfismatið eru fjármálafyrirtæki og tryggingafélög sem lúta eftirliti Fjármálaeftirlits samkvæmt lögum nr. 87 / 1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Lista Fjármálaeftirlitsins má finna hér: Eftirlitsskyldir aðilar

Allir einstaklingar 18 ára og eldri geta óskað eftir að fá sitt CIP lánshæfismat sent til sín og þá eru niðurstöður sendar á lögheimili viðkomandi.

Nálgast má lánshæfismat á vefnum mittcreditinfo.is. Vefurinn er aðgangsstýrður. Sótt er um auðkenni á vefnum með því að smella á hnappinn „Sækja um aðgang“ og eru aðgangsauðkenni þá send í heimabanka og birtast þar undir Rafræn skjöl. Þegar notandi er búinn að sækja auðkennin getur hann skráð sig inn á Mitt Creditinfo og skoðað upplýsingar um sig – og eingöngu um sig.